Svona hlúir maður að andlegri heilsu stúlkna

Unglingsstúlkur eru mikið í símanum og það getur haft áhrif …
Unglingsstúlkur eru mikið í símanum og það getur haft áhrif á andlega heilsu. Getty images

Unglingsárin geta verið erfið. Unglingsstúlkur eru undir sérstaklega miklum þrýstingi vegna samfélagsmiðla og félagslegs þrýstings. Í umfjöllun The Times er leitað til sálfræðings sem gefur foreldrum unglinga góð ráð.

Tala saman til að forðast misskilning

Sálfræðingurinn Beth Mosley hefur skrifað bækur um andlega heilsu unglingsstúlkna. Hún segir að foreldrar eigi það til að bægja frá sér áhyggjurnar. 

„Við viljum bægja þessu frá því við erum hrædd við það sem við uppgötvum ef við einblínum á þetta. Að það breytist í eitthvað stórt vandamál. Stundum viljum við líka ekki sjá vissa hluti því þeir vekja upp svo sárar tilfinningar.“

„Það er mikilvægt að taka með í reikninginn það sem gengur á á heimilinu. Eru fjárhagsvandræði eða hjónabandserjur í gangi? Margt getur fest taki í haus unglinga og orðið að stærri áhyggjum en þarf að vera. Með því að taka samtalið má minnka kvíða þeirra og koma í veg fyrir að þau hrapi að röngum ályktunum. Börn kenna sér oft um vandamál foreldra sinna.“

Forðist fullkomnun

„Aðstoðið börnin við að finnast þau ekki undir miklum þrýstingi til að vera fullkomin. Stúlkur eru undir miklum þrýstingi að standa sig vel í skóla. Ég veit líka um stúlkur sem eru hræddar við einföldustu verkefni eins og að elda pasta. Þær eru ekki hræddar um að brenna sig heldur að búa til eitthvað sem öðrum líkar ekki.“

„Sem foreldrar eigum við það til að einblína á niðurstöður. Það getur verið kvíðavaldandi. Börn þurfa að hafa svigrúm til þess að gera mistök.“

Leggið áherslu á vináttu

„Vinir skipta miklu máli í lífi unglinga og það hefur aldrei verið flóknara að eignast og viðhalda vináttu á tímum snjalltækja. Allir þurfa að eiga einn til tvo nána vini og verja tíma saman í eigin persónu. Stúlkur í dag eru í minna mæli að sækjast eftir því að verja tíma saman.“

Hlúið að sjálfstæði

„Það er freistandi að leysa öll vandamál fyrir börnin okkar. Það er hins vegar mikilvægt að þeim líði eins og þau séu vel í stakk búin að takast á við lífið. Hlúið að sjálfstæði þeirra með til dæmis valdeflandi verkefnum eins og að sjá um innkaupin, matargerð eða passa yngri systkin. Unglingar eru orðnir sífellt hræddari um að takast á við verkefni í lífinu því þau verja svo miklum tíma í herbergjum sínum í símanum. Þau eiga jafnvel erfitt með að panta skyndibitamat í næstu sjoppu.“

Verið fyrirmynd þegar kemur að líkamsvirðingu

„Ekki gagnrýna eigin líkama ef þú vilt byggja upp heilbrigða sjálfsvitund hjá unglingnum. Börn apa eftir foreldrum sínum og stúlkur eru í mikilli hættu á að móta neikvæða sjálfsmynd á unglingsárum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka