„Kaía er allt og miklu meira en það sem ég óskaði mér“

Ragnheiður Júlíusdóttir og Arnar Snær Magnússon eignuðust hundinn Kaíu fyrir …
Ragnheiður Júlíusdóttir og Arnar Snær Magnússon eignuðust hundinn Kaíu fyrir einu og hálfu ári síðan. Samsett mynd

Förðunarfræðingurinn Ragnheiður Júlíusdóttir varð heilluð af hundum eftir að hún passaði hvolp úr fjölskyldunni sumarið 2022. Hún hefur verið að díla við mikil eftirköst af Covid frá ársbyrjun 2022 og varði miklum tíma ein heima á þessum tíma, en eftir að pössuninni lauk upplifði hún heimilið hálf tómlegt og var staðráðin í að fá sér hund. 

Ragnheiður segir unnusta sinn, Arnar Snæ Magnússon, vera mikinn hundakall og því hafi ekki verið flókið að sannfæra hann um að fá hund á heimilið. Um haustið fór Ragnheiður að skoða tegundir sem eru í boði á Íslandi og rakst á Havanese sem henni og Arnari leist best á.

Arnar Snær og Ragnheiður ásamt Kaíu.
Arnar Snær og Ragnheiður ásamt Kaíu.

„Ég fann frábæran ræktanda nálægt mér eftir smá rannsóknarvinnu og gerði allt til þess að sannfæra hana um að við yrðum frábærir hundaforeldrar. Hún var svo indæl að hleypa okkur fljótt að og við fengum Kaíu okkar svo um sumarið 2023. Ég verð henni ævinlega þakklát fyrir það enda er Kaía allt og miklu meira en það sem ég óskaði mér,“ segir Ragnheiður.

Arnar Snær og Kaía í góðum gír.
Arnar Snær og Kaía í góðum gír.

Hvað var það sem heillaði þig við tegundina?

„Það sem heillaði okkur mest við Havanese var að tegundin fer ekki úr hárum, það er auðvelt að þjálfa þá, þeir eru klárir, frekar meðferðarlegir og það virtist ekki vera mikið um veikindi eða galla. Okkur fannst plús hvað þeir eru bangsalegir í útliti, sem gerir þá svona extra sæta, en það fer að vísu eftir því hvernig þú hefur feldinn.“

Ragnheiður og Arnar urðu strax heilluð af tegundinni.
Ragnheiður og Arnar urðu strax heilluð af tegundinni.

Áttir þú gæludýr þegar þú varst yngri?

„Nei ég hef aldrei átt nein dýr. Ég hef aldrei verið mikið fyrir dýr en eitthvað breyttist þarna sumarið 2022 þegar ég fékk að passa hund ein í smá tíma, þá fattaði ég hvað hundar gefa manni mikið.“

Ragnheiður varð heilluð af hundum sumarið 2022.
Ragnheiður varð heilluð af hundum sumarið 2022.

Hverjir eru kostirnir við að eiga hund?

„Helsti kosturinn finnst mér vera þessi fallegu tengsl sem þú myndar við hundinn þinn. Þeir veita manni félagsskap, eru alltaf til í að vera hjá manni og ánægðir að sjá mann. Þeir veita manni svo mikla gleði, sem hjálpar þegar manni líður illa eða er einmanna. Það hefur verið svo gaman að fylgjast með henni vaxa og sjá karakterinn myndast.“

Kaía og Ragnheiður eiga fallegt og dýrmætt samband.
Kaía og Ragnheiður eiga fallegt og dýrmætt samband.

En ókostirnir?

„Ókostirnir eru ekki margir. Auðvitað fylgir þessu ákveðin vinna og vesen eins og að redda pössun, þrífa upp skít og sjá um feldinn og fleira. Dýralæknakostnaður getur verið hár ef eitthvað kemur fyrir, þeir vekja mann á nóttunni og bara þetta týpíska, en fyrir mér er það allt þess virði ef uppeldið er rétt. Vert er að nefna líka að mér finnst ókostur hvað hundar eru óvelkomnir á mörgum stöðum á Íslandi, eitthvað sem þarf klárlega að bæta.“

Ragnheiði þykir það mikill ókostur að hundar séu óvelkomnir á …
Ragnheiði þykir það mikill ókostur að hundar séu óvelkomnir á marga staði á Íslandi.

Hver er ykkar daglega rútína?

„Við vöknum tvær frekar seint oftast, en hún er mjög háð mér og fer ekki úr rúminu fyrr en ég fer framúr, sem er kostur að mínu mati. Þá förum við stutt út í garð til að pissa og kúka, svo inn til þess að fá mat. Svo um tvö leytið förum við oftast einn hring í kringum hverfið þar sem ég leyfi henni að þefa eins og hún vill og hittum oftast nokkra hunda á leiðinni. Þegar við komum heim fær hún oftast nammi eða bein og við leikum smá með bolta, en hún er ekki góð að leika sér ein, vill alltaf hafa okkur með.“

Morgunrútínan er notaleg hjá Ragnheiði og Kaíu.
Morgunrútínan er notaleg hjá Ragnheiði og Kaíu.

„Seinni partinn eða um kvöldið fer hún svo aftur út en foreldrar okkar elska að stela henni eftir vinnu í góðan göngutúr þar sem þau búa nálægt.“

Alsælar í göngutúr.
Alsælar í göngutúr.

Hafið þið deilt einhverjum eftirminnilegum lífsreynslum eða skemmtilegum minningum?

„Mér dettur ekkert eitt atvik í hug, en seinasta sumar var mjög eftirminnilegt og skemmtilegt þar sem við vorum bara að njóta okkar og kynnast betur.“

Seinasta sumar var eftirminnilegt hjá fjölskyldunni.
Seinasta sumar var eftirminnilegt hjá fjölskyldunni.

Er hundurinn með einhverjar sérþarfir eða sérvisku?

„Nei, ég myndi ekki segja það. Hún er bara þessi týpíski hundur en með skemmtilegan karakter. Hún elskar að leika við aðra hunda, elta bolta og fá nammi, er sérlega góð að lokka ömmur sínar að nammi skápnum sem er mjög fyndið. Hún er með mikinn aðskilnaðarkvíða, finnst erfitt að vera ein og getur ekki verið skilin eftir í langan tíma, en ég tek það á mig.“

Kaía kann orðið vel á ömmur sínar sem eiga erfitt …
Kaía kann orðið vel á ömmur sínar sem eiga erfitt með að segja nei við að gefa henni nammi.

„Nýlega finnst henni algjört sport að drekka vatn úr glasi, ég má varla fá mér vatnsglas þá er hún mætt. Annað fyndið sem hún gerir er að hún bíður eftir að Arnar fari í vinnuna á morgnanna því þá getur hún hlammað sér á uppáhaldsstaðinn sinn sem er koddinn hans.“

Kaía bíður spennt eftir að komast á sinn uppáhaldsstað á …
Kaía bíður spennt eftir að komast á sinn uppáhaldsstað á morgnana þegar Arnar Snær fer í vinnuna.

Hvernig gengur að skipuleggja frí með dýr á heimilinu?

„Það hefur gengið vel, hefur alltaf reddast því það eru margir í kringum okkur sem vilja passa hana.“

Mæðgurnar sælar í veðurblíðunni.
Mæðgurnar sælar í veðurblíðunni.

Einhver góð ráð til annarra gæludýraeigenda?

„Gott uppeldi fyrstu tvö árin skipta miklu máli, þá ættu næstu 10 til 12 árin að vera góð. Þótt maður sjái ekki árangur strax þá skiptir máli að halda áfram jafnt og þétt. Það er einnig mikilvægt að umhverfisþjálfa þá og leyfa þeim að hitta aðra hunda. Annars bara þetta týpíska – sýna hundinum athygli og veita þeim hreyfinguna sem þeir þurfa og ást, því flestir þeirra vilja vera sem mest með eigendum sínum.“

Það eru spennandi tímar framundan þar sem Kaía verður stóra …
Það eru spennandi tímar framundan þar sem Kaía verður stóra systir, en þau Ragnheiður og Arnar Snær eiga von á sínu fyrsta barni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert