Lagið Birta eftir Einar Bárðason hlaut fyrsta sæti í samkeppni ríkissjónvarpsins um hvaða lag verður sent í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Kaupmannahöfn í vor.
Kosning fór þannig fram að loknum flutningi laganna í sjónvarpsþættinum Milli himins og jarðar, að áhorfendur hringdu í símanúmer sem hverju lagi hafði verið gefið og höfðu til þess átta mínútur. Hlaut Birta 5710 atkvæði. Í öðru sæti varð lagið Enginn eins og þú eftir Inga Karl Jóhannsson í flutningi Rutar Reginalds en það hlaut 2402 atkvæði. Og í þriðja sæti varð lagið Röddin þín sem höfundurinn, Magga Stína Sigurðardóttir, söng sjálf. Flytjendur sigurlagsins voru Kristján Gíslason, Gunnar Ólason, Nanna Ósk Jónsdóttir og Yasmin og verða þau fulltrúar Íslands í Eurovision-keppninni sem fram fer í Kaupmannahöfn í maí.