Sérsaminn lagstúfur fyrir trompet verður leikinn til heiðurs Timothy McVeigh áður en hann verður tekinn af lífi fyrir að standa að sprengingunni í alríkisbyggingunni í Oklahoma árið 1995. Tónskáldið David Woodard samdi lagstúfinn, sem tekur 12 og hálfa mínútu í flutningi, upphaflega fyrir líknarmorðslækninn Jack Kevorkian en hefur nú tileinkað það McVeigh sem hann segir "stórkostlegan en villuráfandi snilling".
Ekki fékkst heimild til að flytja lagið "Ave Atque Vale" í fangelsinu þar sem aftakan fer fram en það verður flutt í útvarpi að morgni aftökudagsins. McVeigh mun hafa aðgang að útvarpi þar til klukkutíma fyrir aftökuna. David Woodard segist vonast til þess að lagstúfurinn veiti McVeigh huggun. Hann fordæmir sprengjutilræðið í Oklahoma en segir að maðurinn McVeigh og aðstæður hans fylli sig óttablandinni lotningu. Þá bendir hann á að McVeigh eigi ýmislegt sameiginlegt með Jesú Kristi, t.d. það að hann verði 33 ára og fordæmdur um heim allan er hann verður tekinn af lífi. McVeigh hefur lýst yfir fullri ábyrgð á sprengjutilræðinu sem varð 168 manns að bana. Áætlað er að hann verði tekinn af lífi með banvænni sprautu þann 16. maí.