Friðsamur byltingarmaður


mbl.is

Japanski rithöfundurinn Haruki Murakami er í miklum metum meðal bókavina í heimalandi sínu, en ekki er hann eins hátt skrifaður hjá þarlendum bókmenntafræðingum og gagnrýnendum. Murakami er í hópi japanskra rithöfunda sem glíma við fortíðina í japanskri menningu, eru að bylta viðteknum hefðum í sagnaritun og bókmáli og fyrir vikið hefur hann fengið kaldar kveðjur bókmenntapáfa þótt bækur hans hafi selst metsölu. Murakami er einnig vinsæll utan heimalandsins og þannig hafa menn beðið nýjustu skáldsögu hans, Sputnik Sweetheart, með mikilli eftirvæntingu, en sú kom út á ensku fyrir stuttu.

Haruki Murakami fæddist í Ashiya skammt frá Kobe 1949, en ólst upp í Kobe. Foreldrar hans kenndu japanskar bókmenntir og héldu þeim að dreng sem var frekar gefinn fyrir glæpasögur og vísindaskáldsögur á ensku, sem hann hefur sagt sumpart hafa verið uppreisn hans gegn föður sínum. Þar sem Kobe er hafnarborg átti hann auðvelt með að komast yfir skáldsögur á ensku, en einnig voru vestræn áhrif þar sterkari en víða í Japan vegna fjölda farmanna sem leið áttu um borgina.

Að sögn Murakamis hélt hann helst upp á Ross Macdonald, Dashiell Hammett, Ray Bradbury, Robert Silverberg, Philip K. Dick og Raymond Chandler, sem hann segir hafa verið bestan þeirra, enda hefur hann að sögn lesið The Long Goodbye tólf sinnum. Í mörgum bóka sinna leikur Murakami sér einmitt með samlíkingar eins og Chandler, sjá til að mynda Hardboiled Wonderland and the End of the World og A Wild Sheep Chase.

Langaði að skrifa kvikmyndahandrit

Í ræðu sem Murakami flutti við Princeton-háskóla fyrir nokkrum árum, en hann bjó í Bandaríkjunum um fjögurra ára skeið, sagði Murakami að frá unglingsárunum hafi hann langað til að skrifa kvikmyndahandrit og varð meðal annars til þess að hann lærði kvikmyndagerð og leiklist við Waseda-háskóla. Hann áttaði sig þó snemma á því að það átti ekki við hann að skrifa handrit, ekki síst í ljósi þess að hann hafði ekki hugmynd um hvað hann ætti að skrifa, en á þeim tíma segist hann hafa lesið öll kvikmyndahandrit sem hann komst yfir sem skýrir að nokkru hve vel læs hann er á vestræna menningu.

Um það leyti sem Murakamu lauk námi giftist hann og fór að vinna með skólanum Frá 1974 og fram á níunda áratuginn vann Murakami á djassklúbb í Tókýó, saxaði lauk, renndi í glös og sá um reksturinn. Hann segir að á þeim tíma, þegar hann þurfti að streða til að hafa í sig og á hafi hann lært það sem skipti máli fyrir hann sem rithöfundur og í raun lært það um lífið sem hafi gagnast honum best.

Djass kemur oft við sögu í bókum Murakamis, hetjurnar hlusta á djass eða djass er notaður til að gefa stemmningu og áhrif, eins og Bob Cooper er notaður til að undirstrika kuldalegan einmanaleika í South of the Border, West of the Sun, sem segir einmitt frá manni sem rekur djassbúllu, en það kemur sér vel að þekkja til í djass sjötta og sjöunda áratugarins, ekki síður en bandarískra bókmennta þegar Murakami er lesinn; víða felur hann vísanir og lykla.

Í A Wild Sheep Chase, sem var einnig gríðarlega vinsæl í Japan, virðist Murakami enn vera að leika sér með hugmyndir, því eins og fram kemur í bókinni eru kindur framandi í Japan, fyrstu kindurnar komu til landsins á um miðja nítjándu öldina, og voru liður í því að nútímavæða japanskan landbúnað. Fyrir vikið veltir lesandi því fyrir sér hvort ekki sé falin dæmisaga innan um ævintýrasöguna þó Murakami hafi látið þau orð falla að kindurnar séu bókmenntalegur hrævareldur, lykill sem gengur ekki að neinu.

Afdrifaríkur hafnaboltaleikur

Streðið segir Murakami hafa orðið til þess að hann gleymdi öllum draumum um að verða rithöfundur en vorkvöld eitt 1978, þegar hann var 29 ára gamall, segist hann hafa tekið þá ákvörðun að skrifa fyrstu skáldsöguna. Hann segir svo frá að hann hafi verið á hornaboltaleik milli Yakult-svalanna og Hiroshima-karfanna, legið á áhorfendabekk við enda vallarins og drukkið bjór þegar leikmaður sem hét Hilton sló boltann tveggja hlaupa högg. "Sem ég horfði á hann slá hugsaði ég: Nú er tími til þess kominn að skifa skáldsögu," segir hann og segist ekki geta skýrt það frekar að hann varð rithöfundur, leikurinn hafi ekki verið neitt sérstakur og ekkert sérstakt á seyði í lífi hans heldur, hann þurfti bara sinn tíma til að mótast og öðlast lífsreynslu og þar kom að hann var tilbúinn; það vildi bara svo til að það var á hornaboltaleik. "Hugsanlega hefði ég þó aldrei orðið rithöfundur ef ég hefði ekki einmitt farið á þennan leik og séð Dave Hilton slá tveggja hlaupa högg inn á vinstri hluta vallarins."

Rottuþríleikurinn

Þegar fyrsta bók Murakamis, Hear The Wind Sing, kom út fékk hún Gunzo-verðlaunin japönsku sem besta verk ungs rithöfundar árið 1979. Næsta bók þar á eftir var Pinball 1973 (1980) og síðan A Wild Sheep Chase (1982), en þær kallast til samans Rottuþríleikurinn í Japan, enda hefur ein af söguhetjunum viðurnefnið Rottan. Fyrir Wild Sheep Chase fékk Murakami Noma-verðlaunin, en síðar kom framhald hennar.

A Wild Sheep Chase vakti verulega athygli á Murakami á Vesturlöndum, en að sögn hans byggist hún að nokkru á The Long Goodbye Raymonds Chandlers og sumir gagnrýnendur hafa gert því skóna að Norwegian Wood, bókin sem gerði Murakami að stjörnu í Japan, sé byggð að einhverju leyti á The Great Gatsby. Þess má geta að sumir gagnrýnendur kölluðu A Wild Sheep Chase The Big Sheep, sem vísar vitanlega beint í Chandler.

Leikur að hugmyndum

Í A Wild Sheep Chase virðist Murakami enn vera að leika sér með hugmyndir, því eins og fram kemur í bókinni eru kindur framandi í Japan, fyrstu kindurnar komu til landsins um miðja nítjándu öldina sem liður í því að nútímavæða japanskan landbúnað. Fyrir vikið veltir lesandi því fyrir sér hvort ekki sé falin dæmisaga innan um ævintýrasöguna þótt Murakami hafi látið þau orð falla að kindurnar séu bókmenntalegur hrævareldur, lykill sem gengur ekki að neinu.

Bókin sem gerði Haruki Murakkami síðan að stjörnu var Norvegian Wood, sem dregur nafn sitt af slagara Bítlanna, en sú bók, sem gefin var út í tveimur bindum, seldist í tveimur milljónum eintaka hvort bindi. Reyndar er hún ekki ýkja löng, en að því Murakami segir sjálfur frá kjósa Japanir að hafa bækur litlar því ekki er hægt að lesa stórar bækur í þrengslunum í lestum á leið í og úr vinnu.

Norvegian Wood var gefin út á ensku í Japan í kennslubókaröð Kodansha-útgáfunnar 1989, en kom ekki út á Vesturlöndum fyrr en á síðasta ári. Hear the Wind Sing, hefur einnig verið gefin út á ensku í Japan, kom út 1987, og Pinball, 1973, sömuleiðis, kom út 1985. Þeir sem vilja lesa Rottuþríleikinn þurfa því að láta kaupa þær fyrir sig í Japan.

Gagnrýndur í Japan

Eins og getið er hefur Murakami verið gagnrýndur í Japan, en helst hafa íhaldssamir bókmenntamenn gagnrýnt hann fyrir að vera of hallur undir vestræna menningu. Einnig hefur hann verið gagnrýndur fyrir stíl sinn og málfar, sem sumir vilja kalla "þýðingajapönsku", enda stíllinn að sögn frábrugðinn hefðbundnum japönskum skáldsagnastíl, málfarið óformlegra og setningaskipan enskuleg. Fyrir vikið hafi japanskir lesendur, sem kunna ensku, sérdeilis gaman af að lesa Murakami því hann skrifi á mörkum málanna beggja þótt hann sé að skrifa á japönsku.

Upphaflega lagðist Murakami gegn því að bækur hans yrðu þýddar á ensku, enda sagði hann að þýðing myndi spilla þeirri "jap-ensku" sem hann notaði og væri svo snar þáttur í umbúnaði bókanna. Hvað sem því líður hefur stíll hans fallið Vesturlandabúum vel í geð og bækur hans náð miklum vinsældum.

Enginn uppreisnarmaður

Murakami segist sjálfur ekki vera í uppreisn gegn japanskri menningu, málið sé bara að þegar hann var að alast upp var bandarísk menning svo spennandi og lifandi að hann lifði og hrærðist í henni, hékk inni í herbergi og hlustaði á bandarískan djass og rokk, las bandaríska reyfara og horfði á bandarískt sjónvarp. "Ég er ekki í uppreisn gegn höfundum og hefðum fyrri tíma, enda þekkti ég lítið sem ekkert til japanskra bókmenna þegar ég fór sjálfur að skrifa 29 ára gamall.

Sem táningur ætlaði ég að skrifa bækur á ensku, enda taldi ég að mér myndi reynast auðveldara að tjá tilfinningar mínar á ensku, en ég hafði einfaldlega ekki nógu gott vald á tungunni til að geta það. Á sama tíma gat ég ekki komið mér að því að skrifa á japönsku og það tók mig mörg ár að búa til nýja japönsku sem hentaði fyrir þær sögur sem ég vildi segja."

Ekki er hér rúm til að rekja frekar sögu Harukis Murakamis, en má nefna að bækur hans sem komið hafa út á Vesturlöndum eru Norvegian Wood, A Wild Sheep Chase, Hard-Boiled Wonderland and the End of the World, Dance, Dance, Dance, South of the Border, West of the Sun, The Wind-Up Bird Chronicle, smásagnasafnið The Elephant Vanishes og viðtalsbókin Underground.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Einsettu þér að halda jafnvægi á milli einkalífs og vinnunnar og þá koma hlutirnir af sjálfu sér. Ekki missa kjarkinn þó illa gangi að fjármagna verkefni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Kathryn Hughes
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Torill Thorup
5
Jenny Colgan
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Einsettu þér að halda jafnvægi á milli einkalífs og vinnunnar og þá koma hlutirnir af sjálfu sér. Ekki missa kjarkinn þó illa gangi að fjármagna verkefni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Kathryn Hughes
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Torill Thorup
5
Jenny Colgan