Nýtt íslenskt leikrit, Vatn lífsins, eftir Benóný Ægisson, var frumsýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins á föstudagskvöld.
Þetta er þriðja verk Benónýs sem sett er upp á svið atvinnuleikhúss en tvö hafa verið sett upp í Borgarleikhúsinu. Öll eiga verkin sameiginlegt að hafa unnið til verðlauna í leikritasamkeppni en Vatn lífsins fékk 2. verðlaun í samkeppni sem haldin var í tilefni af hálfrar aldar afmæli Þjóðleikhússins.
Verkið gerist um þarsíðustu aldamót og fylgir ungum hugsjónamanni sem snýr heim til kaupstaðarins úr Vesturheimi, uppfullur af framfarahugmyndum - að hann telur. Stefán Karl Stefánsson fer með hlutverk Illuga en aðrir leikarar sem fara með stór hlutverk eru Nanna Kristín Magnúsdóttir, Atli Rafn Sigurðarson, Anna Kristín Arngrímsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir en alls koma 22 leikarar fram í sýningunni. Leikstjóri er Þórhallur Sigurðsson. Leikmynd gerði Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir, búninga Filippía I. Elísdóttir, tónlist Vilhjálmur Guðjónsson og lýsing er í höndum Páls Ragnarssonar.