Bjarni Bjarnason hlaut Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness í Þjóðmenningarhúsinu í dag fyrir skáldsöguna Mannætukonan og maður hennar, en verðlaunin voru afhent í fimmta sinn. Pétur Már Ólafsson, formaður dómnefndar og útgáfustjóri Vöku Helgafells, afhenti Bjarna verðlaunin, sem hlaut að launum 500 þúsund krónur, skrautritað verðlaunaskjal, verðlaunapening og fyrsta eintakið af bókinni, sem gefin var út í dag.
Auk Péturs sátu Ármann Jakobsson, íslenskufræðingur, og Kolbrún Bergþórsdóttir, bókmenntagagnrýnandi, í dómnefndinni. Bjarni hefur áður sent frá sér skáldsögur, smásögur og leikrit, en hann er í hópi höfunda af yngri kynslóðinni. Útgáfufélagið Vaka Helgafell stendur fyrir verðlaununum í samráði við fjölskyldu skáldsins.