Fyrsta myndin eftir sögunum um töfradrenginn Harry Potter og vini hans er þegar farin að slá hvert aðsóknarmetið á fætur öðru vestanhafs. Myndin var frumsýnd þar á föstudaginn og í lok fyrsta sýningardags var þegar orðið ljóst að nýtt æði væri byrjað. Þegar upp var staðið undir lok sunnudags kom það líka á daginn að engin mynd, hvorki fyrr né síðar, hefur aflað eins mikilla tekna um frumsýningarhelgi.
Áætlaðar tekjur af sölu aðgöngumiða frá föstudegi fram á sunnudag hljóða upp á 93,5 milljónir dollara eða rúmlega 10 milljarða króna. Fyrra metið var orðið fjögurra og hálfs árs gamalt en það átti The Lost World, önnur risaeðlumynd Spielbergs, en tekjur af henni fyrstu sýningarhelgi voru ríflega 20 milljónum dollara lægri. Það sem meira er, útlit er fyrir, ef þessi tekjuáætlun framleiðenda Harry Potter, Warner-bræðra, stenst, að myndin slái einnig naumlega fjögurra daga met risaeðlumyndarinnar en hún var sýnd um svokallaða langa helgi, fríhelgi, þegar tekjur af mánudagsaðsókn voru teknar með í spilið. Önnur met sem féllu þar að auki voru eftirfarandi: Nóvemberfrumsýningarmet sem Monster Inc. setti fyrir tveimur vikum er nú Harry Potters, engin mynd hefur verið frumsýnd samtímis í eins mörgum kvikmyndasölum (3.672 talsins), og myndin gerði sér þar að auki lítið fyrir og sló aðsóknarmet hvers sýningardags um helgina fyrir sig, þ.e. engin mynd hefur halað inn eins miklar tekjur á föstudegi, laugardegi og sunnudegi, hverjum fyrir sig. Annað met sem er örugglega fallið þegar hér er komið sögu er að engin mynd hefur verið eins fljót að afla 100 milljóna dala í tekjur en það met var áður í höndum The Phantom Menace. Eftir þessa metahrinu er vonlegt að menn séu farnir að velta fyrir sér hvort myndinni takist hið svo gott sem ómögulega, að slá yfirburðaaðsóknarmet Titanic á heimsvísu. Það kemur þó ekki í ljós fyrr en eftir nokkra mánuði hvort það met er í hættu en lykillinn á bak við velgengni Titanic var einmitt hversu lífseig hún var.
Að vonum eru aðstandendur myndarinnar hjá Warner himinlifandi og viðurkenna fúsir að bjartsýnustu menn hefðu ekki þorað að spá fyrir um viðtökurnar. Allt útlit er enda fyrir að myndin verði tekjuhæsta mynd fyrirtækisins frá upphafi og slái þar með út metaðsóknarmyndir á borð við Batman- og Lethal Weapon-bálkana.
Í Bretlandi hefur myndin og slegið viðlíka met og reyndust tekjur af henni fyrstu sýningarhelgina nær helmingi hærri en af The Phantom Menace, sem átti eldra frumsýningarmetið.
Myndin verður frumsýnd víðast hvar annars staðar í heiminum á næstu tveimur vikum, en hér heima hefjast sýningar föstudaginn 30. nóvember í nokkrum af helstu kvikmyndahúsum landsins. Að sögn Róberts Westleys, markaðsfulltrúa hjá Sambíóunum, hafa þegar selst yfir 2.000 miðar í forsölu sem sýnir að áhugi Íslendinga á ljóslifandi Harry Potter er síst minni en annarra.
skarpi@mbl.is