Það urðu viss tímamót þegar sigurvegari í árlegri söngkeppni Samfés, Samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi, sem fram fór í Laugardalshöll á laugardag, reyndist vera rappari. Pétur Gunnarsson fulltrúi félagsmiðstöðvarinnar Miðbergs í Breiðholti kom sá og sigraði með taktföstum og öruggum flutningi á frumsömdu rapplagi þannig að ekki fór milli mála að í æðum drengsins rennur hreinræktað hiphop-blóð. Agla Friðjónsdóttir frá Setrinu í Hafnarfirði náði öðru sæti með flutningi á Alanis Morisette-laginu „Ironic“ og í þriðja sæti lenti Vigdís Ásgeirsdóttir sem söng fyrir Garðalund í Garðarbæ lag KK „When I Think of Angels“. Alls tóku þátt 48 keppendur frá jafnmörgum félagsmiðstöðvum hvaðanæva af landinu. Að venju var Höllin þétt setin og stemmningin mikil og góð.