Myndband enska tónlistarmannsins Fatboy Slim við lagið "Weapon of Choice" hefur verið valið besta myndband allra tíma af fróðum mönnum í myndbanda- og tónlistariðnaðinum, að því er sjónvarpsstöðin VH1 greindi frá í dag. Sérfræðingunum þykir myndband við lag Bjarkar Guðmundsdóttir, "It´s Oh So Quiet", sjöunda besta myndband allra tíma.
Spike Jonze leikstýrði myndbandinu við lag Fatboy Slim en það inniheldur m.a. dansatriði með leikaranum góðkunna, Christopher Walken. Jonze leikstýrði einnig myndbandi við lag Bjarkar og svo næstbesta myndbandinu sem er við lag hljómsveitarinnar Beastie Boys, "Sabotage." Fatboy Slim, sem einnig er þekktur sem Norman Cook, sagði þegar hann heyrði fréttirnar: „Þetta er mesta viðurkenning sem ég hef nokkru sinni hlotið, í alvöru!" Sérfræðingarnir vörðu nokkrum mánuðum til að velja 100 bestu myndbönd allra tíma. Af tíu bestu eru sex myndbönd breskra listamanna. Myndbandið við lag Michael Jackson "Thriller," sem löngum hefur verið talið besta myndband allra tíma, náði ekki nema í 6. sæti listans. Þá náði myndband við lag Queen, "Bohemian Rhapsody," ekki nema í 17. sæti. Varaforstjóri dagskrárgerðar á VH1, Christine Boar, sagði að listinn staðfesti að fólk væri loksins vaxið upp úr "Thriller." Listi yfir tíu bestu myndbönd allra tíma: