Fimmtudaginn 11. júlí var síðasti starfsdagurinn í Bíóborginni Snorrabraut, en þar hafa kvikmyndasýningar nú verið lagðar niður. Í tilefni af síðasta sýningardeginum var frítt inn á allar sýningar og létu menn ekki segja sér það tvisvar, flykktust í bíó og fylltu hvert sæti sem í boði var.
Kvikmyndasýningar höfðu staðið í húsinu í 55 ár en það var opnað árið 1947 sem Austurbæjarbíó og var þá stærsta samkomuhús landsins. Opnunarmyndirnar voru þá tvær, Hótel Casablanca með Marxbræðrum og tónlistarmyndin Jeg hefi ætíð elskað þig.
Árið 1987 var Austurbæjarbíói svo breytt í Bíóborgina er Sambíóin tóku yfir reksturinn. Í kjölfarið var ráðist í gagngerar breytingar á húsinu og varð það fyrsta kvikmyndahúsið hér á landi til að taka THX hljóðkerfið í notkun.