Fjöldi fólks hefur safnast saman á því sem kallað hefur verið stærsta „reif" Evrópu en „reif" eru danshátíðir, oftast ólöglegar, þar sem oftar en ekki er spiluð tæknitónlist. Meira en 5.000 manns hafa safnast saman á Ítalíu, rétt hinum megin við landamæri Frakklands í Ölpunum. Lögregla gerir sitt besta til að koma í veg fyrir hátíðina, sem kölluð hefur verið Teknival 2002.
Búist er við því að fólki eigi enn eftir að hópast á staðinn og að allt að 30.000 manns safnist þar saman um helgina en hátíðin stendur þar til á sunnudag. Hátíðin er venjulegast haldin í Suður-Frakklandi en ákveðið var að halda hana á Ítalíu í þetta sinn vegna nýrra þarlendra laga gegn „reifum" er tóku gildi í maí á þessu ári. Yfirvöld í Frakklandi reyndu að stöðva hátíðarhöldin með því að setja vegatálma á veginn sem liggur að staðnum. Eftir átök við dansunnendur, sem köstuðu steinum, var ákveðið að opna veginn á ný. Ástandið hefur nú róast og ekkert hefur borið á átökum. Ítalska lögreglan hefur sent lögreglubíla inn á hátíðarsvæðið en hefur ekki reynt að beina gestum á brott. Þó virðist sem vanti eitthvað upp á hljóðkerfið á staðnum og er annaðhvort talið að lögregla hafi varnað því að allar græjur kæmust á staðinn eða að það hafi verið erfiðleikum háð að koma bestu græjunum á staðinn um þröngan Alpaveginn, sem tepptur er af bílum. „Þetta er ekki alvöru reif. Án besta hljóðkerfisins er þetta meira eins og sígaunabúðir," kvartaði einn gestanna, Nico, tvítugur að aldri, en hann sagðist, eins og flestir aðrir, vera ákveðinn í að skemmta sér um helgina þrátt fyrir þetta.