Íslenska stöðin, FM 91,9, er komin í loftið og var opnunarteiti haldið af því tilefni um helgina. Margir mættu á staðinn til að fagna en Íslenska stöðin stendur undir nafni og spilar eingöngu íslenska tónlist.
Valgeir Magnússon og Sigurður Hlöðversson, eða Valli sport og Siggi Hlö, voru á meðal þeirra sem fögnuðu tilkomu Íslensku stöðvarinnar. Ekki ætti það að koma á óvart í ljósi þess að þeir eru með þátt á systurstöðinni, Steríó 89,5, og eru jafnframt meðal eigenda stöðvanna.
Axel Axelsson verður með morgunþætti á nýju stöðinni og einnig verður Valdís Gunnarsdóttir með þátt, að sögn Brynjars Más Valdimarssonar, útvarpsstjóra og eins eigenda.
Hann vill minna á að þetta sé "eina íslenska stöðin í heiminum" og segir stöðina í jólaskapi þessa dagana.