Heimildarmynd um Michael Jackson vekur enn deilur

Michael Jackson.
Michael Jackson. AP

Margir aðdáendur Michael Jacksons, eru sagðir hafa brugðist illa við heimildarmynd bresku sjónvarpsstöðvarinnar ITV um tónlistarmanninn, sem sýnd hefur verið í sjónvarpi, meðal annars í Bandaríkjunum og Bretlandi. Hins vegar hafa nokkur dagblöð í Bandaríkjunum tekið upp hanskann fyrir Jackson og sagt að reynt sé að gera lítið úr tónlistarmanninum. Í kvikmynd ITV, sem nefnist „Living With Michael Jackson”, greinir Jackson frá einkalífi sínu, meðal annars því að hann deilir rúmi sínu með börnum sem heimsækja heimili hans á Neverland-búgarðinum.

Í þættinum vísar Jackson því á bug að ástæðan sé af kynferðislegum toga. Hann er hins vegar harðlega gagnrýndur fyrir að greina frá því að 12 ára drengur komi reglulega til Neverland og eyði tíma með honum og sofi í rúminu hans. Jackson greiddi á sínum tíma hundruð milljóna króna í dómssátt eftir að unglingur sakaði hann um kynferðislega misnotkun. Jackson neitaði ætíð sök, en kveðst hafa greitt bætur því hann vildi ekki að málið drægist á langinn.

Breskur blaðamaður, Martin Bashir, er sagður hafa eytt tæplega einu ári við gerð myndarinnar, en Bashir fylgdist með ferðum tónlistarmannsins, kynntist börnunum hans og fór jafnvel í verslunarferð með Jackson. Talið er að bandarískar sjónvarpsstöðvar hafi greitt um 400 milljónir króna fyrir þáttinn, sem sýndur var þar í landi í gær. Hann var fyrst sýndur á ITV1 í Bretlandi á mánudag. Talið er að 14 milljónir áhorfenda hafi fylgst með þættinum í Bretlandi.

Haft er eftir David Willis, einum aðdáanda Jackson, á BBC One að hann sé í losti eftir að hafa horft á þáttinn, þar sem því eru gerðir skórnir að Jackson sé barn í líkama 44 ára gamals manns. „Ég er að nokkru leyti sorgmæddur og kenni í brjósti um hann. Það virðist eins og bernska hans hafi leikið hann grátt,” segir Willis. Annar áhorfandi sagðist vera hrifinn af tónlistarmanninum Jackson en hann mundi ekki treysta honum fyrir börnunum sínum.

Nokkur bandarísk dagblöð hafa tekið upp hanskann fyrir Jackson og gagnrýnt Bashir fyrir þá meðferð sem söngvarinn fær í þættinum. Hins vegar segir Gloria Allred, lögfræðingur manns, sem staðhæfði að Jackson hefði misnotað sig fyrir áratug, að þátturinn sýni að hefja verði rannsókn á málinu að nýju. Þá hafa lögregluyfirvöld í Santa Barbara í Kaliforníu, þar sem búgarður Jacksons er, greint frá því að upplýsingar sem fram koma í þættinum verði teknar alvarlega. Í yfirlýsingu lögregluyfirvalda segir að upplýsingar frá Jackson séu óvenjulegar en ekki ólöglegar. Þá er búið að opna fyrir símalínu þar sem fólk getur hringt til lögreglu ef það telur sig búa yfir sönnunargögnum um söngvarann.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir