Þeir, sem hafa fylgst með kynningarþáttunum um Söngvakeppni Sjónvarpsins að undanförnu ættu að vera farnir að kannast við einhver laganna. Lögin 15, sem keppast um að vera fulltrúi Íslands í Evróvisjón í ár, hafa ennfremur verið spiluð á Rás 2 og þættirnir endurfluttir. Að baki hverju lagi stendur a.m.k. einn höfundur og verða þeir kynntir nánar hér. Lögin verða öll flutt á hátíð í Háskólabíói í kvöld og velur þjóðin hver höfundanna fær lag sitt til Lettlands í maí.
Allt
Höfundur lagsins er Höskuldur Örn Lárusson en hann samdi textann ásamt bróður sínum Agli. Hann er frá Hellu á Rangárvöllum og spilaði fyrir fáum árum í hljómsveitinni Spoon ásamt Emilíönu Torrini.
Tangó
Ragnheiður Eiríksdóttir samdi þetta lag, sem hún flytur sjálf, en textinn er eftir Þorkel S. Símonarson. Hún er þekkt tónlistarkona og dagskrárgerðarmaður. Hún hefur verið í mörgum hljómsveitum um dagana en er oftast kennd við Unun. Fyrst kom Heiða, eins og hún er jafnan kölluð, fram með hljómsveitinni Candyman í hljómsveitarkeppni í Húsafelli árið 1987.
Mig dreymdi lítinn draum
Hreimur Örn Heimisson, söngvari Lands og sona, flytur þetta lag Friðriks Karlssonar, sem einnig samdi texta. Friðrik er þekktur tónlistarmaður, ekki síst fyrir veru sína í Mezzoforte, en hann er búsettur í Englandi. Hann hefur tvisvar unnið forkeppni. Lagið "Nei eða já" náði 7. sætinu og "Nætur" 12. sæti í Evróvisjón ytra. Skyldi Friðrik fá þriðja tækifærið?
Sá þig
Yngstu höfundarnir í keppninni eru þeir Albert G. Jónsson og Kristinn Sturluson. Þeir eru báðir 24 ára gamlir, hafa þekkst frá fornu fari. Lag þeirra "Flying Over", sem er á rómatísku nótunum, hljómaði títt í útvarpi árið 1997, þannig að strákarnir byrjuðu snemma. Albert og Kristinn reka jafnframt saman hjóðverið Stúdíó Ölur. Þórey Heiðdal, gömul vinkona strákanna og góður samstarfsmaður, syngur lagið.
Ást á skítugum skóm/ Hvar sem ég enda
Karl O. Olgeirsson er höfundur tveggja laga í keppninni. Rúnar Júlíusson syngur "Ást á skítugum skónum" og Þóra Gísladóttir "Hvar sem ég enda," við texta Braga Valdimars Skúlasonar. Karl hefur starfað við tónlistina síðan hann hætti í menntaskóla. Hann er í hinni vinsælu hljómsveit Milljónamæringunum og hefur víða komið við innan tónlistargeirans m.a. unnið tónlist fyrir leikhús, útvarp og sjónvarp.
Segðu mér allt
Ein vinsælasta söngkona landsins, Birgitta Haukdal, syngur þetta lag Hallgríms Óskarssonar, en textann sömdu þau í sameiningu. Hallgrímur er verkfræðingur og starfar sem ráðgjafi í sínu fagi bæði innan lands sem utan.
Eurovísa
Rokksveitina Botnleðju þarf vart að kynna. Sveitina skipa Haraldur Freyr Gíslason, Heiðar Örn Kristjánsson og Ragnar Páll Steinsson. Þeir hafa mikinn áhuga á að komast til Lettlands í vor og er Eurovísa þeirra framlag til að rokka upp Evróvisjón.
Þú og ég (er ég anda)
Ingólfur Guðjónsson og Stefán Hilmarsson sömdu þetta lag saman, sem Jóhanna Vigdís Arnardóttir flytur, en Stefán á textann.
Stefán er þekktur sem söngvari Sálarinnar hans Jóns míns. Ingólfur hefur einnig starfað í tónlistarbransanum til margra ára en hann og Stefán voru lengi vel í sveitinni Pláhnetunni og hafa samið mörg lög saman.
Engu þurfum að tapa
Höfundurinn Einar Örn Jónsson býr í Reykjavík en er uppalinn á Blönduósi þar sem hann stundaði tónlistarnám sem barn og unglingur. Þekktastur er hann fyrir að vera í hljómsveitinni Í svörtum fötum. Regína Ósk Óskarsdóttir og Hjalti Jónsson flytja lagið.
Með þér
Hjördís Elín Lárusdóttir og Guðrún Árný Karlsdóttir flytja þetta lag Sveins Rúnars Sigurðssonar. Sveinn Rúnar er Garðbæingur með klassískan tónlistarferil að baki. Hann stundar nú nám við Háskóla Íslands.
Í nótt
Færeyska söngkonan Eivör Pálsdóttir syngur lag Ingva Þórs Kormákssonar við texta Friðriks Erlingssonar. Höfundurinn er starfandi bókasafnsfræðingur, reyndar tónlistarmaður frá unga aldri og þekktur lagahöfundur. Ingvi Þór Kormáksson er ennfremur í hljómsveitinni JJ Soul Band.
Sögur
Ingunn Gylfadóttir syngur þetta lag, sem hún samdi ásamt eiginmanninum Tómasi Hermannssyni, en textinn er eignaður Sjón. Þau hafa í tvígang átt lag eða lög í forkeppninni. Ingunn hefur m.a. gefið út plötuna Krakkar á krossgötum.
Nú
Lagið varð til í samvinnu hjóna líkt og hér að ofan. Lagið samdi Grétar Örvarsson, þekktur fyrir veru sína í hljómsveitinni Stjórninni, en eiginkona hans Ingibjörg Gunnarsdóttir er höfundur texta. Margir muna eftir því þegar Grétar söng "Eitt lag enn" ásamt Sigríði Beinteinsdóttur í Evróvisjón árið 1990 og höfnuðu þau í 4. sæti sem er næstbesti árangur Íslands.
Ferrari
Lag og texta samdi Páll Torfi Önundarson en Ragnheiður Gröndal flytur. Páll Torfi er yfirlæknir blóðmeinafræðideildar Landspítala - háskólasjúkrahúss og dósent við læknadeild Háskóla Íslands. Hann er menntaður á klassískan gítar og spilaði ungur í hljómsveitinni Diabolus in musica þegar hann stundaði nám við MH.