Nýstofnuð Kvikmyndamiðstöð Íslands heilsaði formlega upp á gestgjafa sína í Cannes og aðra samstarfsmenn og velunnara, gamla og nýja, með því að efna til sérstakrar móttöku á föstudaginn var á skrifstofu norrænu kvikmyndamiðstöðvanna, sem er á besta stað við strandgötuna La Croisette, meginæð kvikmyndahátíðarinnar í Cannes.
Að sögn Laufeyjar Guðjónsdóttur, framkvæmdastjóra Kvikmyndamiðstöðvar, hefur verið sérlega vel tekið á móti nýju miðstöðinni og starfsfólki hennar, en auk Laufeyjar eru á staðnum Hjörtur Grétarsson og Guðrún Edda Þórhannesdóttir, sem bæði tóku nýverið til starfa hjá Kvikmyndamiðstöð.
Starfsmenn Kvikmyndamiðstöðvar eru í Cannes til að kynna það sem íslensk kvikmyndagerð hefur upp á að bjóða um þessar myndir, þær myndir sem hlotið hafa styrk frá Kvikmyndasjóði, auk þess að greiða leið þeirra íslensku kvikmyndagerðarmanna sem eru í Cannes til að koma á framfæri myndum sínum eða hugmyndum að myndum sem stendur til að framleiða.
Cannes. Morgunblaðið.