Það rann upp stór og langþráð stund á fimmtudagskvöldið hjá Árbæjarsveitinni Maus og aðdáendum hennar. Þá hélt sveitin nefnilega útgáfutónleika í Iðnó vegna útkomu nýrrar plötu sem heitir Musick. Platan kom í búðir fyrr í vikunni og hefur farið mjög vel af stað, framar björtustu vonum að sögn útgefenda, en Smekkleysa gefur plötuna út.
Hún leyndi sér heldur ekki eftirvæntingin sem ríkti í loftinu fyrir tónleikana. Til þess að æsa hana enn frekar var fyrst boðið upp á allóvænt upphitunaratriði sem mikil leynd hafði hvílt yfir fyrir tónleikana. Reyndist það vera söngflokkurinn Brooklyn Five, reyndar skipaður fjórum liðsmönnum, sem söng með sínu nefi tvö Maus-lög.
Fögnuður var mikill í troðfullu Iðnaðarmannahúsinu þegar þeir Biggi, Palli, Danni og Eggert stigu á svið og hófu að leika lögin af nýju plötunni, öll með tölu í þeirri röð sem þau koma fyrir á plötunni. Greinilegt var að margir eru þegar orðnir vel kunnugir þessum lögum en bestu viðtökur fengu þó lögin sem mesta spilun hafa hlotið í útvarpi, gamla "Kerfisbundin þrá" sem nú heitir "How Far is Too Far", titillagið "Musick" sem var á Alltaf sama svínið, 16 ára afmælisplötu Smekkleysu, sem út kom fyrir jólin síðustu og fékk töluverða spilun þá í útvarpi, og svo auðvitað "Life in a Fishbowl" sem er á góðri leið með að verða eitt vinsælasta lag landsins um þessar mundir, en það er mjög mikið spilað á X-inu og Rás 2. Þess má geta að Maus hefur nýlokið við gerð myndbands við lagið undir handleiðslu Barkar Sigþórssonar.
Eftir að hafa rennt í gegnum plötuna tóku Maus-liðar nokkur vel valin lög af fyrri plötum og yljaði mörgum viðstöddum um hjartaræturnar að heyra t.a.m. órafmögnuðu útgáfuna af "Kristalnótt" en sú alltof sjaldheyrða útgáfa hefur löngum verið höfð í miklum metum.