Ný útvarpsstöð hóf útsendingar fyrir helgi á tíðninni 94,3. Er þar um að ræða Íslensku jólastjörnuna, sem eins og nafnið gefur til kynna mun sjá um að keyra upp jólastemningu á öldum ljósvakans fram að hátíðinni helgu. Einvörðungu verður send út íslensk tónlist og mun jólalögunum fjölga jafnt og þétt er líða fer að jólum. Íslenska jólastjarnan er í samstarfi við www.jol.is, vefsíðu sem tileinkuð er jólunum og haldið er úti með reglubundnum hætti allan ársins hring.
Meðfram tónlistinni verður svo að sjálfsögðu einblínt á jólastemninguna og jólaundirbúninginn. Beinar útsendingar verða utan úr bæ vegna þessa og hlustendum gefst kostur á að taka þátt í hinum ýmsu leikjum og vinna veglega jólavinninga. Jafnframt er unnið að því hörðum höndum að fá einhvern jólasveininn í spjall. Dagskrárstjórn stöðvarinnar er í höndum Sigurðar Péturs Harðarsonar og tæknistjóri er Hans Steinar Bjarnason.