Lögmaður poppgoðsins Michaels Jacksons heitir hverjum þeim sem flekkar mannorð skjólstæðings sín öllu illu og heldur lögmaðurinn því jafnframt fram að ásakanir á hendur Jackson um misnotkun séu drifnar áfram af peningagræðgi. Mark Geragos heitir því að verja Jackson af öllum kröftum. Geragos svaraði spurningum blaðamanna í gær en efasemdir hafa komið fram um trúverðugleika ásakandans og fjölskyldu hans.
Fjölskyldan hefur tvívegis áður kært meinta misnotkun. Í annarri málshöfðuninni hélt fjölskyldan því fram að hún hafi sætt barsmíðum öryggisvarða í verslunarmiðstöð og hin tengist skilnaði foreldra drengsins þar sem faðirinn var sakaður um að hafa misþyrmt konu sinni og börnum.
Í nóvember 2001 greiddi fyrirtækið J.C. Penney fjölskyldu drengsins 137.500 dali til að sætta mál þar sem drengurinn, móðir hans og bróðir héldu því fram að öryggisverðir hefðu barið þau en drengurinn var með fatnað undir höndum sem hann hafði ekki greitt fyrir. Móðirin hélt því jafnframt fram að hún hafi verið kynferðislega áreitt af einum varðanna.
Jackson gaf sig fram við lögreglu á fimmtudag og var látinn laus gegn 3 milljóna dala tryggingu.