Poppstjarnan Michael Jackson kemur í dag fyrir rétt, ákærður fyrir að beita ungan dreng kynferðislegu ofbeldi. Málið verður þingfest í Santa Maria í Kalíforníu og þar verður ákæran lesin upp. Búist er við að Jackson lýsi sig saklausan en hann hefur sagt að ásakanirnar á hendur honum séu upplognar. Mikill viðbúnaður fjölmiðla er á staðnum og einnig hafa aðdáendur Jacksons undirbúið ferðir þangað til að sýna honum stuðning.
Jackson var handtekinn í nóvember að undangenginni húsleit í Neverland, sveitasetri hans í Kalíforníu. Hann var síðan ákærður fyrir að beita ungan dreng kynferðislegu ofbeldi og gefa honum áfengi.
Málið verður þingfest klukkan 16:30 að íslenskum tíma og er talið að réttarhaldið standi yfir í um 45 mínútur í dag. Fréttamenn og ljósmyndarar hafa þegar búið um sig utan við dómhúsið og búið er að reisa sölubása til að mæta þörfum mannfjöldans. Búist er við að um þúsund manns safnist saman utan við dómhúsið.
Hundruð manna ætluðu að leggja af stað í dag í bílalestum frá nálægum borgum, svo sem Los Angeles og Las Vegas. Tugir stuðningsmanna Jacksons mótmæltu utan við skrifstofu Tom Sneddons, saksóknara í Santa Barbara sýslu í gær og sumir héldu á spjöldum þar sem sagt var að Jackson væri saklaus. Þá stóðu um 60 manns með logandi kertaljós í nokkurn tíma utan við Neverland.