Enska tónskáldið John Tavener samdi verk fyrir Björk Guðmundsdóttur sem hún hljóðritaði með Brodsky-kvartettinum. Verkið hefur aldrei heyrst opinberlega en kemur nú út á geisladiski í fyrsta sinn. Plötufyrirtækið Naxos, stærsta útgáfa á sígildri tónlist í heimi, gefur diskinn út.
Tavener samdi verkið eftir að hafa hitt Björk fyrir nokkrum árum, en hann segist hafa hrifist af rödd hennar fyrir frumstæða orkuna sem búi í henni.
„Það besta við röddina fannst mér og finnst enn að hún er ekki mótuð af vestrænni hefð, óbeisluð og hrífandi,“ segir Tavener og bætir við að hann þekki vel til tónlistar Bjarkar, til að mynda sé lagið An Echo A Stain af Vespertine svo þrungið tilfinningum að jafnist á við Schubert.