Björk Guðmundsdóttir er nú í Lundúnum að leggja lokahönd á væntanlega breiðskífu, The Lake Experience, sem gefa á út á þessu ári. Upptökum lauk hér á landi fyrir viku. Á plötunni heyrast engin hljóðfæri, allir taktar og undirspil er búið til með röddum Bjarkar og samstarfsmanna hennar. Þeirra á meðal eru japanski raddlistamaðurinn Dokaka, Mike Patton söngvari Fantomas, kanadíska inúítasöngkonan Tagaq, sem söng með Björk á tónleikum hér á landi, Mark Bell, sem hefur oft unnið með Björk, Rahzel úr The Roots og íslenskur kór sem settur var saman til að syngja á plötunni.