Bandaríski popparinn Michael Jackson hefur verið ákærður af kviðdómi í Kaliforníu sem hefur rannsakað ásakanir um að Jackson hafi misnotað dreng kynferðislega í febrúar og mars á síðasta ári, að því er CNN hefur eftir heimildarmanni. Í yfirlýsingu frá lögmönnum Jacksons segir: „Michael hlakkar til að koma fyrir rétt og vill færa milljónum aðdáenda sinna um heim allan þakkir fyrir að hafa haldið áfram að styðja hann á þessum erfiða tíma.“
Lögmennirnir segja að Jackson muni lýsa sig saklausan þegar honum verður lesin ákæran 30. apríl nk. í Santa Barbara. Ekki hefur verið ákveðið hvenær réttarhöldin hefjast.
Jackson, 45 ára, lýsti sig saklausan í janúar af sjö ákæruatriðum um ósæmilega framkomu gagnvart barni undir fjórtán ára aldri og tveimur ákæruatriðum um að haf gefið barni áfengi.
Í yfirlýsingu lögmannanna segjast þeir þess fullvissir að Jackson verði að fullu sýknaður.
Nítján manna kviðdómurinn kom saman 29. mars og sat á fundum í 13 daga til að ákveða hvort nægilegar sannanir væru til að ákæra söngvarann. Umræddur drengur var 12 ára í febrúar og mars á síðasta ári.