Bandaríski popparinn Michael Jackson mætti 40 mínútum áður en honum var lesin ákæra fyrir dómstóli í Santa Maria í Kaliforníu í dag en þessi ákæra fjölskipaðs kviðdóms gæti orðið til þess að auka líkurnar á því að réttað verði í málinu. Jackson lýsti sig síðan saklausan af öllum ákæruatriðum um að hann hafi misnotað tólf ára dreng kynferðislega.
Popparinn var skammaður af dómara þegar hann mætti of seint síðast þegar málið var tekið fyrir.
Jackson var með gleraugu og hélt á regnhlíf þegar hann kom til dómshússins í dag. Hann brosti og veifaði aðdáendum sínum.
Danny Macagni, yfirmaður hjá lögreglunni í Santa Maria, segir að 42 af 107 lögreglumönnum á vakt hefði verið fyrirskipað að taka sér stöðu við dómshúsið. Að auki hefðu 50 fulltrúar sýslumanns verið sendir á vettvang. Búist er við að a.m.k. 130 blaðamenn verði á svæðinu.
Jackson rak tvo verjendur sína í síðustu viku og er nýi verjandinn Thomas Mesereau Jr.
Jackson kom 20 mínútum of seint fyrir dómara 16. janúar vegna þess að hann varði löngum tíma til að heilsa aðdáendum sínum. Að lokinni þeirri dómsgjörð fór Jackson út og dansaði fyrir aðdáendur sína. Líklegt er að nýi lögmaðurinn hans ráðleggi honum að hegða sér ekki svo léttúðlega heldur sýna meiri alvöru.