Að lokinn hjónavígslu Friðriks, krónprins Dana og Mary Donaldson, sem nú hefur fengið titilinn krónprinsessa Danmerkur,um þrjúleytið í dag að íslenskum tíma, héldu hin nýbökuðu hjón í hestvagni að Amalíuborgarhöll. Þaðan stóð til að þau veifuðu til fólks sem safnast hefur saman við höllina í tilefni af deginum. Mörg hundruð manns fylgdust með því þegar brúðhjónin óku af stað í hestvagninum. Við lok brúðkaupsathafnarinnar í Vorrar frúarkirkju braust sólin fram úr skýjunum og lýsti á haf danskra þjóðfána, sem ásamt ástralska fánanum, blakta víða í borginni í dag.
Eftir að Friðrik og Mary hafa staldrað við í Amalíuborgarhöll, er ferð þeirra heitið á nýtt heimili þeirra hjóna í Fredensborgarkastala, sem er um 40 kílómetra utan við Kaupmannahöfn. Í kastalanum mun svo fara fram konungleg brúðkaupsveisla sem stendur fram á kvöld.
Um 400 gestum er boðið til veislunnar, en búist er við að henni ljúki með mikilli flugeldasýningu rétt eftir miðnætti í nótt.
Dorrit Moussaieff, forsetafrú, Þorsteinn Pálsson, sendiherra í Danmörku og Stefán Stefánsson, forsetaritari, voru fulltrúar Íslendinga við brúðkaupið.