Jón Jósep Snæbjörnsson, Jónsi, sagðist í gærkvöldi vera ánægður með árangurinn í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, en Ísland varð þar í 19. sæti með 16 stig. Hann sagðist einnig hlakka til að koma heim aftur - mest þó til endurfunda með syni sínum. Við tækju stífar æfingar fyrir söngleikinn Fame sem frumsýna á síðar í sumar í Vetrargarðinum í Smáralind, en þar fer hann með eitt aðalhlutverkið.
Á blaðamannafundi sem úkraínska stúlkan Ruslana hélt í nótt eftir að hafa unnið keppnina, sagðist hún hafa þau skilaboð til Evrópu að hún tryði á guð og ástina og vonaði að hún gæti með framlagi sínu haft jákvæð áhrif á ímynd Úkraínu meðal annarra Evrópuþjóða og bætt úr þeim skaða sem m.a. slysið í Tsjernóbýl hafi valdið ímynd landsins í augum útlendinga. Hún sagðist hafa verið að tala í síma við æðstu valdamenn þjóðarinnar og þeir hefðu fullvissað sig um að þeir myndu gera allt sem í þeirra valdi stæði til að halda keppnina í Kænugarði að ári.
Ruslana sagðist hafa hitt og kynnst keppendum fjölmargra þjóða á síðustu vikum og nefndi Ísland í því sambandi.