Faðir poppstjörnunnar Michael Jacksons hefur ráðið lögfræðing sem hann segir að eigi að veita Jackson aukaaðstoð meðan á réttarhöldum stendur yfir honum, vegna ásakana um kynferðislega misnotkun gagnvart börnum, að því er frá er greint í frétt BBC. Lögfræðingurinn sem Joseph Jackson, faðir Michaels hefur ráðið til starfans, heitir Debra Opri og hefur áður verið verjandi söngvarans James Brown.
Opri segist ekki eiga að vera hluti af verjendaliði Jacksons, en muni leitast við að verja „fjölskylduhagsmuni“ við réttarhöldin.
Jackson hefur lýst sig saklausan af 10 ákærum um kynferðislega misnotkun á börnum, þar á meðal kæru fyrir samsæri í því skyni að ræna barni.
Opri segir að faðir Jacksons vilji að hún sæki réttarhöldin ásamt honum og „útskýri fyrir honum hvað þar fer fram.“
„Joseph elskar son sinn og vill fá að vita um allan framgang í málinu,“ sagði hún. „Ég er manneskja sem trúi á réttlæti og ég trúi því að Michael Jackson sé saklaus. Ég trúi því ekki að hann sé fær um að skipuleggja slíka glæpi,“ bætti hún við.
Næst verður réttað í máli Jacksons 28. maí næstkomandi.