Blindsker - Saga Bubba Morthens er heimildarmynd sem eldhugar í kvikmyndafélaginu Poppoli hafa unnið að síðastliðin tvö ár og gera ráð fyrir að frumsýna í kvikmyndahúsum í haust.
Vel hefur gengið að þræða skerjagarðinn um líf og störf þessa mikilvæga tónlistarmanns og segir Ólafur Jóhannesson, leikstjóri myndarinnar, að fyrsta "klipp" verði að öllu líkindum tilbúið í júní.
"Þessa dagana erum við að fara í gegnum safnefnið sem til er um Bubba, og er það alveg gríðarlegt magn. Það er mikil vinna fólgin í því að gera honum Ásbirni Morthens skil, og skiljum við nú af fenginni reynslu afhverju svo margir sem hafa ætlað að búa til mynd um Bubba hafa hrökklast frá því verkefni. Ferill og saga þessa tónlistarmanns er svo umfangsmikil að hann er eiginlega orðinn nokkurs konar þjóðareign. Við höfum því lagt okkur eftir því að gera þetta 170% vel."
Ólafur Páll Gunnarsson (Óli Palli) semur handritið að myndinni, Ragnar Santos hefur yfirumsjón með kvikmyndatöku og Benedikt Jóhannesson klippir, en myndin er unnin í samvinnu við Friðrik Þór Friðriksson.
Meginfókus myndarinnar verður á manninn Bubba Morthens fremur en tónlist hans, og segir Ólafur að skyggnst verði dýpra á bak við þá mynd af Bubba sem þjóðin þekkir.
"Við reynum að komast að því hvað drífur manninn áfram, og förum auðvitað út í þennan ótrúlega bakgrunn hans," segir Ólafur. "Þar ætlum við að leita lengra en komið hefur fram í viðtölum, t.d. verður fjallað um uppvaxtarár Bubba og það umhverfi sem hann kemur úr. Þá er mjög mikið áhugavert efni til um Bubba sem við munum nota, en það er í raun einsdæmi hversu vel honum hefur verið fylgt eftir í gegnum tíðina. T.d. hefur Friðrik Þór látið okkur hafa gamalt efni úr sínum fórum sem hann tók á filmu þegar hann fylgdi Bubba og Utangarðsmönnum eftir á níunda áratugnum. Tolli bróðir Bubba tók sömuleiðis upp efni af Utangarðsmönnum þegar þeir voru að ferðast á milli verbúða. Ekki má gleyma öllu aukaefninu úr Rokk í Reykjavík sem Friðrik hefur leyft okkur að skoða líka. Tímabilið 1980 til 1987 var eiginlega geggjaðasta tímabilið hans Bubba, og því ómetanlegt að fá þetta gamla efni, án þess hefðum við varla lagt í að gera myndina."
Ólafur bætir við að styrkir frá tveimur fyrirtækjum, Íslandsbanka og Essó, hafi gert þeim félögum kleift að hefja verkið, en síðan hafi Kvikmyndasjóður styrkt verkefnið.
"Það er ekki annað hægt en að gera stóra og vandaða mynd um Bubba Morthens, og leggjum við áherslu á að fólk geti séð hana í bíó. Við viljum að myndin verði sterk kvikmyndaupplifun, með fjölbreyttu en um leið skemmtilegu efni, og umfangsmiklum strúktúr, eins og hæfir kvikmynd í fullri lengd."
heida@mbl.is