Konur voru í sviðsljósi MTV-kvikmyndahátíðarinnar í Culver í Kaliforníu í gærkvöldi þegar verðlaun voru veitt og viðurkenningar afhentar. Hin blóðþyrsta og hefnigjarna Uma Thurman í Kill Bill: Vol. 1 fékk verðlaun fyrir bestan leik konu í aðalhlutverki, að því er Ananova greinir frá. Drew Barrymore og Adam Sandler hrepptu titilinn besta parið á hvíta tjaldinu fyrir hlutverk sín í hinni óvenjulegu „minnislausu og rómanstísku“ kvikmynd 50 First Dates.
Við afhendingu verðlaunanna hrósaði Uma Thurman vini sínum Quentin Tarantino leikstjóra Kill Bill kvikmyndanna. Hann hefði varið mörgum árum í að skrifa handritið fyrir hana.
Drew Barrymore stakk upp á hún og Sandler þökkuðu Hawaii því að mynd þeirra var tekin þar en Adam Sandler sagðist aðeins vilja þakka fólkinu þar sem hefði útvegað sér „illgresi“.
Á MTV-hátíðinni var Hringadróttinssaga: Konungurinn snýr aftur, verðlaunuð sem besta kvikmyndin og Johnny Depp var valinn besti karlleikarinn fyrir hlutverk sitt í Pirates of the Caribbean: The Curse of the Black Pearl og Jack Black hreppti verðlaun sem besti grinleikarinn fyrir hlutverk sitt í School of Rock.
Á meðal þeirra sem skemmtu gestum hátíðarinnar með spili og söng má nefna Eminem og hljómsveit hans D12, Beastie Boys og Yeah Yeah Yeahs.