Hin goðsagnakennda rokksveit Egó er vöknuð til lífsins á ný, sem fyrr með Bubba Morthens í fararbroddi. „Mig og Magga langaði að endurstofna hljómsveitina, vekja hana aftur til lífsins og finna okkur meðspilara með áframhaldandi spilamennsku í huga og jafnvel plötuupptökur þegar fram líða stundir," segir Bubbi, en sveitin er þekkt fyrir kraftmikil rokklög á borð við Fjöllin hafa vakað.
Nýja útgáfu Egó skipa Jakob Smári á bassa, Magnús Stefánsson á trommur, Hrafn Thoroddsen úr Ensími á hljómborð, Einar kenndur við Dúndurfréttir er á gítar og Bubbi syngur. „Þetta er fimmta útgáfan af Egó," segir Bubbi.
"Fyrstu tónleikarnir okkar verða á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Prógrammið samanstendur af sextán Egó-lögum, "best of". Síðan eru lög af Ísbjarnarblús, lög með Das Kapital, eins og "Blindsker", svo tökum við tvö, þrjú Utangarðsmannalög, "Jón Pönkari" og "Hiroshíma". "The Guns of Brixton" með Clash er á prógramminu og sitt lítið af hverju," segir Bubbi og bætir við að æfingar hafi staðið yfir um nokkurn tíma.
Bubbi segir að það setji ákveðna pressu að fyrstu tónleikarnir verði á Þjóðhátíð. "Það þýðir það að við verðum að vera betri en allir aðrir. Við verðum að geta sýnt fram á það að við séum komnir til að vera. Ég óttast ekkert miðað við hvernig bandið er. Magnús er að mínu mati besti rokktrommuleikari sem við eigum og ég held að Jakob sé besti bassaleikarinn og hinir tveir eru heldur engir aukvisar," segir Bubbi, sem sjálfur er löngu orðinn landsþekktur.
„Ég held að þetta verði ferlega flott."
Búið er að ákveða að Egó verði með tónleika á Akureyri um miðjan september og má búast við tónleikum í Reykjavík um svipað leyti.
ingarun@mbl.is