Einhver persónanna í teiknimyndaþáttunum vinsælu um Simpsons-fjölskylduna er samkynhneigður og kemur út úr skápnum með kynhneigð sína. "Í þættinum lögleiðir Springfield hjónabönd samkynhneigðra til að safna peningum," sagði framleiðandinn Al Jean við aðdáendur þáttanna á myndasöguráðstefnu.
Þættinum með þessu atriði verður sjónvarpað í Bandaríkjunum í janúar á næsta ári en lögleiðing hjónabanda samkynhneigðra er eldfimt málefni í Bandaríkjunum í forsetakosningabaráttunni.
"Hómer gerist prestur með því að fara á netið og fylla út eyðublað. Persóna, sem er búin að vera lengi í þáttunum kemur út úr skápnum en ég ætla ekki að segja hver," er haft eftir honum á fréttavef BBC.
Á vefsíðum tileinkuðum þáttunum er fólk strax farið að giska á hver þetta sé. Sumir halda því fram að þetta sé skósveinninn hans herra Burns, Waylon Smithers, en aðrir hallast að því að um sé að ræða aðra eða báðar systur Marge.
Þættirnir eru þekktir fyrir annað eins en síðast var það lát Maude Flanders, sem kom á óvart. Þá eins og nú var búið að tilkynna að einhver persónanna myndi láta lífið.
Höfundur þáttanna, Matt Groening, minntist einnig á það á ráðstefnunni að Simpsons-mynd yrði gerð en þó ekki fyrr en þættirnir rynnu skeið sitt á enda.
Gestastjörnur í næstu þáttaröð verða hugsanlega rapparinn 50 Cent, grínleikarinn Ray Romano og Kim Cattrall úr Beðmálum í Borginni.