Veðurfræðingar í Moskvu hafa fengið þau skilaboð að þeir verði sektaðir ef þeir spái rangt fyrir um veðrið. Borgarstjórinn, Júrí Lúshkov, sagði veðurfræðingana verða látna bera fjárhagslega ábyrgð á þeim skaða sem borgin kunni að verða fyrir vegna rangrar veðurspár.
Sagði hann þetta einkum eiga við á veturna þegar ekki sé spáð fyrir um mikla hríðarbylji sem hafi áhrif á mannvirki í borginni.
Frá þessu greinir Ananova.com.
Fyrr í mánuðinum féll 20 sm snjór í Moskvu á einni nóttu og er þetta mesta hríð sem orðið hefur í borginni í mörg ár. Margar götur voru ófærar eftir veðrið því að ekki höfðu verið kallaðir út nógu margir snjóplógar. Margir borgarbúar komust ekki til vinnu daginn eftir.
Lúshkov segir að það sama gæti gilt á sumrin, ef til dæmis stór útihátíð væri skipulögð í samræmi við sólarspá en síðan yrði mígandi rigning.