Bandarísku sjónvarpskonunni og lífsstílsfrömuðinum Martha Stewart var sleppt úr fangelsi í dag, en þar hefur hún afplánað fimm mánaða langan dóm fyrir að hafa logið til um sölu á hlutabréfum. Stewart mun senn koma fram í nýjum sjónvarpsþætti en hún verður í stofufangelsi í aðra fimm mánuði.
Stewart ræddi ekki við blaðamenn og ljósmyndara sem biðu fyrr utan lágmarksgæslufangelsið í Alderson í Vestur-Virginíu. Hélt hún beint út á flugvöll og var ferð hennar heitið til Bedford í New York þar sem hún á heima.
Fangelsisvist Stewart lýkur opinberlega á sunnudag, en fangelsisyfirvöld geta sleppt föngum á föstudegi ef afplánun dóma þeirra ber upp á helgardegi, að sögn fangelsisyfirvalda.
Stewart verður í stofufangelsi á heimili sínu í fimm mánuði. Hún verður að bera rafrænt ökklaband svo hægt verði að fylgjast með ferðum hennar. Hún hefur þó leyfi til þess að dveljast annars staðar en á heimili sínu í alls 48 klukkustundir í hverri viku til þess að vinna, en það hefur hún ákveðið að gera.
Stewart, sem er 63 ára, hefur tekið að sér sama hlutverk og Donald Trump í nýrri útgáfu Lærlingsins (The Apprentice) á sjónvarpsstöðinni NBC.