Bandaríska poppstjarnan Britney Spears hefur staðfest, að hún sé þunguð en miklar vangaveltur hafa verið um það í fjölmiðlum. „Rétti tíminn er loks kominn til að deila þeim frábæru fréttum með ykkur, að við eigum von á fyrsta barni okkar," skrifa Britney og Kevin Federline, eiginmaður hennar, á vefsíðu poppstjörnunnar.
Spears, sem er 23 ára og , Federline, sem er 27 ára, giftu sig í september í fyrra.
Britney bætir við á heimasíðu sinni að fréttir hafi verið um að hún hafi verið lögð á sjúkrahús um helgina. „Við Kevin viljum bara láta alla vita, að mér líður vel. Þakka ykkur fyrir hugulsemina og bænirnar."
Samkvæmt fréttum er Britney komin 2-4 mánuði á leið.
Federline á fyrir tvö börn með leikkonunni Shar Jackson og yngra barnið fæddist eftir að þau Britney tóku upp samband.