Rokkarinn Alice Cooper kom til landsins í gærkvöldi. Tók hópur um 120 vélhjólamanna á móti honum á hjólum sínum við flugstöðina í Keflavík og ók á undan honum sem leið lá frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur. Tveir hljómsveitarmeðlimir fengu hjól lánuð, en Cooper sjálfur kaus frekar að aka í bíl á eftir vélhjólunum.
„Hann var rosalega sæll og glaður og sagði þetta höfðinglegustu móttökur sem hann hefði fengið í langan tíma," segir Berglind Ólínudóttir, meðlimur í Sniglunum, sem skipulagði móttökurnar. Hún sagði að Cooper og hljómsveit hans yrði boðið í mótorhjólaferðir á meðan á dvölinni hérlendis stæði hér en ekki væri ekki ljóst hvað yrði úr því.
Cooper lét sig ekki muna um að veita eiginhandaráritanir, og fékk Marvin Kjarval Michelsen rithandarsýnishorn hjá meistaranum þegar hann kom á Hótel Holt.