Laugardalshöllin verður opnuð aftur á fimmtudaginn þegar söngvarinn rámi Joe Cocker stígur þar á stokk, en höllin hefur verið lokuð í sumar vegna viðhalds og endurbóta.
„Húsið varð fjörutíu ára gamalt í ár þannig ekki veitir af því að taka það í gegn og færa inn í nútímann,“ segir Jónas Kristinsson, forstöðumaður hallarinnar. Hann segir að frískað hafi verið upp á útlitið innandyra, auk þess sem sviðið hafi verið endurbætt og húsið málað að innan. „Endurbæturnar eru hvergi nærri búnar en í þessari lotu frískuðum við upp á anddyrið, kaffiteríuna og salinn. Þá hækkuðum við sviðið þannig að tónleikagestir fá nú betra útsýni en áður.“
Verið er að byggja nýtt íþróttahús við hlið gömlu hallarinnar og segir Jónas að framkvæmdir hafi gengið vel og fyrirhugað sé að það verði komið í gagnið nk. nóvember. „Gamla og nýja húsið verða tengd með byggingu. En nýi salurinn mun þýða að við munum geta boðið uppá fleiri og fjölbreyttari viðburði en áður.“