Popparinn Michael Jackson hefur keypt tvö hús á paradísareyju í arabaríkinu Bahrain fyrir litlar 93 milljónir íslenskra króna. Eyjan sem um ræðir er ein af þremur eyjum í Bahrain sem gerðar eru af manna höndum en fimm ár tók að búa þær til.
Á eyjunni eru, að sögn bandaríska dagblaðsins New York Post, einkasjúkrahús, skóli, skemmtigarður, golfvöllur og höfn fyrir báta og lystisnekkjur.
Michael Jackson fór til Bahrain eftir að hann var sýknaður af ákæru um kynferðisbrot gegn börnum síðastliðið sumar og hefur hann dvalið í landinu undanfarna mánuði í boði konungsfjölskyldunnar.