Miðasala á tónleika Hættu!-hópsins, sem haldnir verða þann 7. janúar n.k., hófst kl. 10 í morgun og varð uppselt í stúku að fjórum mínútum liðnum. 95% miðanna seldust í almennri sölu.
Tónleikarnir verða haldnir í Laugardalshöll og bera yfirskriftina „Ertu að verða Náttúrulaus? Stórtónleikar gegn Virkjanastefnunni!“. Íslenskir tónlistarmenn og erlendir leiða þar saman hesta sína en tilefni tónleikanna er að vekja athygli á umgengni við náttúru Íslands og að hún sé ekki „uppspretta raforkuvera eða álvera,“ eins og segir í tilkynningu frá Hættu!.
Ham, Damien Rice, Lisa Hannigan, Magga Stína og hljómsveit, Múm, Sigur Rós, Hjálmar, KK, Rass, Björk, Zeena Parkins, Ghostigital, Damon Albarn og Egó koma fram meðal á tónleikunum auk þess sem óvæntar uppákomur verða.