Um 20% Norðmanna segjast sjaldan eða aldrei kyssa nokkurn mann. Þetta kemur fram í könnun sem birtist í dag. Þessi norska könnun leiðir í ljós að hjón eða pör með börn eru þrisvar sinnum líklegri til að skiptast á kossum en þeir sem búa einir.
Eitt þúsund Norðmenn tóku þátt í könnuninni og 48% þeirra sögðust kyssa einhvern oft. Könnunin var gerð af Norstat í Ósló. Fleiri konur eða 53% sögðust kyssast oft en einungis 44% karla.
Trúlegt þykir að mismuninn sem þarna má finna á milli „kyssenda" og „kossaþega" megi skýra með þeim hætti að börn hljóti marga kossa. 61% fjölskyldna með börn sögðust kyssast oft.
Einungis 19% einstæðinga, sem tóku þátt í könnuninni, sögðust kyssa einhvern oft og 29% þeirra sem eru 50 ára og eldri sögðust eiginlega aldrei kyssa nokkurn mann.
Það var tannburstaframleiðandi sem lét gera könnunina í von um að geta sýnt fram á tengsl milli heilbrigði í munni og kossa. 40% karlanna og 50% kvenna sem tóku þátt í könnuninni töldu að andremma væri óaðlaðandi.