Um 50 keppendur reyndu á með sér á heimsmeistaramótinu brenninetluáti í enska þorpinu Marshwood á dögunum. Þessi íþrótt krefst þó nokkurrar hugdirfsku þar sem mikill sviði og óþægindi fylgja slíku áti auk þess sem netlulaufin þykja viðbjóðsleg á bragðið. Eigandi kráarinnar Bottle Inn útvegar keppendum netlurnar og heldur mótið.
Upphaf heimsmeistaramótsins má rekja til þess að Alex nokkur Williams lét þau orð falla að ef einhver fyndi lengri brenninetlu en hann hefði í höndum myndi hann borða hana. Það varð úr og keppni hófst í brenninetluáti. Joe Carter er heimsmeistari í kvennaflokki í ár og Samuel Ennis í karlaflokki. Hann mælir ekki með íþróttinni og segir hana hreinlega viðbjóðslega.