Undanfarna daga hefur orðið „triskaidekaphobia" verið eitt vinsælasta leitarorðið á leitarvél Yahoo en orðið vísar til ótta við töluna þrettán en föstudagurinn þrettándi er einmitt í dag. Í aðdraganda dagsins hefur „triskaidekaphobia" skotist í fyrsta sæti yfir fælnisorð sem fólk leitar upplýsinga um. Orðin Acrophobia Agoraphobia Xenophobia, sem þýða lofthræðsla, víðáttufælni og ótti við útlendinga eru hins vegar alla jafna þau orð sem fólk leitar helst upplýsinga um.
Triskaidekaphobia er ótti við töluna þrettán sem er tengd er ótta við óheppni í vestrænum menningarheimi sem rekja má allt aftur til miðalda. Orðið er hins vegar nýtt á nálinni en óttinn við töluna þrettán er enn svo viðtekin í upplýsingasamfélagi nútímans að í Bandaríkjunum er algengt að þrettánda hæð háhýsa sé kölluð fjórtánda hæð.
Talið er að rekja megi ótta við töluna þrettán til þess að þrettán menn voru viðstaddir síðustu kvöldmáltíð Jesú. Þá telja sumir fræðimenn hann einnig tengjast því að í dagatali gyðinga og Kínverja eru ekki hlaupár heldur þrettán mánuðir í einstaka árum.
Þá er hugsanlegt að rekja megi þrettándaóttann til ásatrúar en samkvæmt henni bauð Óðinn ellefu vinum sínum til veislu í valhöll. Loki mætti hins vegar óboðinn til veislunnar (sem þrettándi maður) og leiddi það til átaka á milli hans og Baldurs sem síðar leiddu til dauða Baldurs.
Fram kemur á vefnum Wolfram MathWord að algengast sé að þrettándi dagur mánaðar komi upp á föstudegi. Þá kemur þar fram að samkvæmt rannsókn sem greint var frá í hinu virta breska tímariti British Medical Journal sýni tölfræði að umferðaróhöpp séu mun algengari föstudaginn þrettánda en föstudaginn sjötta þegar tekið hefur verið tilliti til umferðarþunga.