Árlega fá tólf japanskir ferðamenn alvarleg taugaáföll vegna þeirrar þjónustu og þess viðhorfs sem þeir mæta í París höfuðborg Frakklands. Tveir af hverjum þremur þeirra ná sér að fullu en þriðjungur á upp frá því við langvarandi geðræn vandamál að stríða,” samkvæmt upplýsingum Yousef Mahmoudia, sálfræðings við Hotel-Dieu sjúkrahúsið í París. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
„Viðkvæmir ferðamenn geta brotnað saman þegar glansmyndir þeirra af ákveðnu landi standast ekki í raunveruleikanum,” segir danski sálfræðingurinn Herve Benhamou. þá segir hann slík tilfelli verða æ algengari með auknum ferðamannastraumi og að þeim hafi nú verið gefið nafnið "Parísar-einkennið".
Japanskir ferðamenn munu vera sérstaklega viðkvæmir fyrir slíku enda eiga þeir mikilli kurteisi að venjast heima fyrir og verða því oft fyrir miklu áfalli þegar þeir kynnast ruddaskap annarra þjóða.