Gamanleikarinn Will Ferrell hafnaði boði um að fá greiddar 29 milljónir dollara fyrir að gera framhaldsmynd um jólaálfinn. Segir Ferrell þetta ekki hafa verið nógu mikið af peningum til að hætta á að gera vonda mynd. Hann segir ennfremur að ekki komi til greina að hann taki þátt í gerð framhaldsmyndar um „Gamla skólann“.
Ferrell segist gera sér grein fyrir því að 29 milljónir dollara séu há laun fyrir að „vera í þröngum buxum“, og skírskotaði þar til græna jólasveinaálfsbúningsins sem hann klæddist í fyrstu myndinni. „Það er bilun,“ sagði hann.
En það hafi ekki verið erfitt að hafna boðinu. „Ég spurði sjálfan mig hvort ég myndi þola gagnrýnina þegar þeir segðu að ég hefði bara gert þetta fyrir peningana. Ég komst að þeirri niðurstöðu að ég myndi ekki þola það.“