Þúsundir aðdáenda leikstjórans Peters Jacksons, ásamt nafntoguðum leikurum og leikstjórum, hafa mótmælt því á netinu að Jackson verði ekki fenginn til að gera kvikmyndina um Hobbitann eftir sögu J.R.R. Tolkien. Mótmælin virðast hafa skilað árangri því nú hefur New Line framleiðslufyrirtækið ákveðið að maðurinn sem á svo eftirminnilegan hátt kom þríleik Tolkiens um Hringadróttinssögu á hvíta tjaldið, verði þrátt fyrir allt við stjórnvölinn þegar kvikmyndin um Hobbitann verður gerð.
Jackson upplýsti sjálfur á netinu að New Line hefði ákveðið að fá annan leikstjóra til að gera myndina og leiddi það til stuðningsherferðar sem skilaði sér í yfir 50.000 stuðningsyfirlýsingum. Á netinu voru allir unnendur þríleiks Jacksons um Hringadróttinssögu hvattir til að sniðganga kvikmynd um Hobbitann sem leikstýrt er af öðrum en Jackson. Talsmenn New Line höfðu áður látið sér nægja að senda frá sér fréttatilkynningu þar sem sagði að samstarfið við Jackson í kringum gerð Hobbitans væri erfitt og að leikstjórinn hefði höfðað mál á hendur fyrirtækinu.
Jackson heldur því fram að New Line skuldi sér og fyrirtæki sínu, Wingnut, peninga fyrir gerð Hringadróttinssögu. Jackson segir að New Line haldi Hobbitanum í gíslingu meðan á málarekstrinum standi. Stuðningur við Jackson á netinu jókst stöðugt og nú virðist sem stuðningur Ian McKellans, sem lék Gandalf í Hringadrottinssögu, Elijah Wood og MGM, sem á dreifingarréttinn á Hobbitanum, hafi gert útslagið.