Jólageitin í Gävle í Svíþjóð náði mikilvægum áfanga þegar hún stóð enn keik á stalli sínum á Slottstorget eftir jóladag. Geit úr stráum hefur verið reist á torginu í 40 ár og oftar en ekki hefur verið kveikt í henni fyrir jólin eða hún hefur lent í öðrum hremmingum.
Stundum hefur verið kveikt í geitinni það snemma í desember, að tími hefur unnist til að reisa nýja geit í staðinn en oftar en ekki hefur torgið verið tómt á jóladag. Þetta árið var öflugu eldvarnaefni úðað yfir geitina og hefur það dugað vel.
Reynt var að kveikja í geitinni fyrir tæpum tveimur vikum. Bensíni var úðað yfir hægri framfótinn og eldur borinn að en eldvarnarefnið kom í veg fyrir að eldurinn breiddist út. Smá sviðablettir eru á geitinni en að öðru leyti var hún óskemmd.