Fleiri karlmenn en konur sofa með bangsa samkvæmt nýrri könnun sem framkvæmd var í Bretlandi. Samkvæmt könnuninni sofa 20% karlmanna með bangsa í rúminu þegar þeir sofa þar einir en 15% kvenna gera það. 2.000 einstaklingar tóku þátt í könnuninni og kváðust 63% þeirra þurfa á kvöldknúsi að halda til að geta sofið. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Þá segjast tveir af hverjum þremur finna til einsemdar þegar þeir leggjast til svefns án maka síns. 16% þeirra segjast sofa illa sofi makinn ekki við hlið þeirra og 3% segjast finna til kvíða leggist þeir til svefns án makans.
8% kvennanna sem tóku þátt í könnuninni segjast nota ilmefni maka síns til að geta sofið í fjarveru hans en 3% karla segjast gera slíkt hið sama. Í könnuninni var fólk einnig spurt að því með hvaða frægu persónu þeir vildu helst leggjast til svefns með. Vildu konurnar helst sofa við hlið kvikmyndaleikarans Johnny Depp en karlarnir völdu flestir kvikmyndaleikkonuna Angelinu Jolie.