Ólafur Skúlason skoraði eitt marka Helsinborg í 4:0-sigri liðsins á útivelli gegn IFK Hässleholm í 2. umferð sænsku bikarkeppninnar í knattspyrnu í gær. Sölvi Ottesen skoraði síðara mark Djurgården í 2:0-sigri liðsins gegn Norrby. Hjálmar Jónsson var í byrjunarliði Gautaborgar sem lagði Ängelholms, 6:3, eftir framlengingu og vítaspyrnukeppni. Jóhann Guðmundsson kom inná sem varamaður í upphafi síðari hálfleiks í liði GAIS sem tapaði 2:1 á útivelli gegn Skövde
Birkir Ívar Guðmundsson, landsliðsmarkvörður í handknattleik, varði 13 skot í 30:27-sigri N-Lübbecke gegn Göppingen í þýsku deildinni í gær. Þórir Ólafsson komst ekki á blað hjá N-Lübbecke og Jaliesky Garcia skoraði ekki fyrir Göppingen. Lübbecke á enn von um að halda sér í deildinni; liðið er í næstneðsta sæti hennar með 10 stig en Wetzlar er með 11 stig í þriðja neðsta sæti.
Fjórir íslenskir fimleikamenn taka þátt í Evrópumótinu í áhaldafimleikum sem fram fer í Amsterdam í Hollandi um helgina. Margrét Hulda Karlsdóttir og Rúnar Alexandersson ásamt bræðrunum Róberti og Viktori Kristmannssonum keppa fyrir Íslands hönd. Þá munu Íslendingar eiga tvo fulltrúa í dómarastéttinni, Björn Magnús Tómasson og Söndru Dögg Árnadóttur.
Javier Saviola, argentínski framherjinn sem leikur með Spánarmeisturum, er á leið til Real Madrid í sumar ef marka frá fregnir í spænska blaðinu Marca í gær. Samningur Saviola við Börsunga rennur út í sumar og að sögn Marca er umboðsmaður leikmannsins í samningaviðræðum við Real Madrid.
Saviola, sem er 25 ára gamall, hefur verið í herbúðum Barcelona frá árinu 2001 en hefur á þessum árum ekki náð að festa sig í sessi og hefur verið láni hjá Monaco og Sevilla á þessum árum.
Körfuknattleiksdeild ÍR skilaði 800.000 kr. í hagnað á síðasta rekstrarári en frá þessu var greint á aðalfundi deildarinnar. Skuldastaða deildarinnar hefur lagast til muna á undanförnum misserum og gera ÍR-ingar ráð fyrir að allar skuldir verði að fullu greiddar eftir tvö ár. Stjórn deildarinnar var endurkjörin til næsta árs, með þeirri viðbót að Guðmundur Ólafsson kemur nýr inn sem gjaldkeri. Jón Örn Guðmundsson er formaður, en aðrir í stjórn eru: Þorgeir Einarsson, Pétur Hólmsteinsson, Gísli J. Hallsson, Halldór Þorsteinsson og Reynir L. Guðmundsson.