Ástarsamband varnarmanna sem leika með tveimur af toppliðum ensku úrvalsdeildarinnar er umfjöllunarefni leikritsins Heteróhetjur: Með fullri virðingu fyrir Ashley Cole. Verkið er opnunarsýning Art-Fart leiklistarhátíðarinnar sem hefst í kvöld.
Höfundur og leikstjóri verksins er Heiðar Sumarliðason sem stundar nám við fræði og framkvæmd í leiklistardeild Listaháskóla Íslands. Hann segir verkið vera skáldskap sem byggi lauslega á raunverulegum persónum og atburðum, en verkið fjallar um ástarsamband varnarmannanna Ashley Cole, sem Hilmir Jensson leikur, og William Gallas, sem Hilmar Guðjónsson leikur.
Margir af þekktustu leikmönnum ensku knattspyrnunnar fléttast inn í sögun á einn eða annan hátt, t.a.m. leikmenn á borð við Frank Lampard, Thierry Henry, Claude Makelele og Sol Campbell auk þjálfara Chelsea Jose Mourinho. Þá reka líka inn nefið stjörnur á borð við Girls Aloud, Robbie Williams, Pete Doherty og Kate Moss.
Sem fyrr segir er þetta opnunarsýning Art-Fart hátíðarinnar og stendur hún yfir næstu tvær vikurnar. Aðeins verður hægt að sjá sýninguna á meðan hátíðinni stendur.