Buckinghamhöll hefur neitað að tjá sig um frétt, í blaðinu Sunday Times um að einhver í bresku konungsfjölskyldunni hafi sætt fjárkúgunartilraun. Að sögn blaðsins snýst málið um ásakanir um fíkniefnanotkun og kynlíf. Ekki er upplýst hver úr fjölskyldunni varð fyrir fjárkúgunartilrauninni.
Breska ríkisútvarpið BBC segir, að talsmaður hallarinnar hafi aðeins viljað segja að um væri að ræða lögreglumál og Scotland Yard væri að rannsaka það.
Lögregla segir, að tveir karlmenn, 30 og 40 ára, hafi komið fyrir dómara í Westminster 13. september sakaðir um fjárkúgun. Voru þeir úrskurðaðir í gæsluvarðhald og munu koma á ný fyrir rétt í desember.
Sunday Times segir, að tveir menn hafi krafist 50 þúsund punda, jafnvirði um 6,2 milljóna króna, en ella myndu þeir birta opinberlega myndband, sem þeir sögðu að sýndi einn úr konungsfjölskyldunni hafa munnmök. Þá sögðust þeir einnig hafa undir höndum gögn, sem sönnuðu að umræddur aðili hefði látið aðstoðarmanni í té kókaín.
Lögreglan var kölluð til og mættu óeinkennisklæddir lögreglumenn á fund með fjárkúgurunum á Hilton hóteli í Lundúnum. Þegar umrætt myndband var spilað voru mennirnir handteknir.
Sunday Times segir að þetta sé í fyrsta skipti í rúma öld sem reynt er að kúga fé út úr bresku konungsfjölskyldunni. Síðast hafi það gerst árið 1891 þegar krónprinsinn, sem síðar varð Játvarður VII ræddi við lögmenn sína um hvort hann ætti að greiða tveimur vændiskonum fé gegn því að fá í hendur bréf sem hann hafði skrifað þeim. Þetta kom í ljós árið 2002 þegar bréfin voru seld á uppboði.