Landnámsmaður á lítilli eyju, Fjárvík, úti fyrir vesturströnd Hjaltlands, hefur lýst yfir sjálfstæði eyjarinnar, og segir hana ekki lengur hluta af Stóra-Bretlandi, og viðurkennir ekki yfirvöld í Evrópusambandinu.
Fjárvík er um einn hektari að stærð, og eigandi hennar, Stuart Hill, segir á vef sínum að forsendur sjálfstæðisyfirlýsingarinnar séu aldagamall heimanmundur.
Segir hann að Fjárvík sé yfirráðasvæði krúnunnar, og hafi því sömu stöðu og Mön, Jersey og Guernsey, sem heyra beint undir bresku krúnuna, en hvorki bresk stjórnvöld né Evrópusambandið.
Hill er eini íbúinn á Fjárvík, þar sem hann hefst við í tjaldi. Hann er 65 ára og hefur verið búsettur á Hjaltlandi síðan 2001, er hann varð að hætta við tilraun til að sigla á skútu umhverfis Bretlandseyjar.
Hill segist ætla að búa til sjálfstæðan gjaldmiðil fyrir Fjárvík, gyllini, gefa út frímerki og hann nýjan fána.
„Hér verður ekki innheimtur neinn tekjuskattur, virðisaukaskattur, útsvar eða neinir þeirra skatta sem bresk stjórnvöld hafa komið á,“ segir Hill.
Hann byggir sjálfstæðisyfirlýsingu sína á samkomulagi frá 15. öld á milli Kristjáns Noregskonungs og James Skotlandskonungs þar sem Hjaltland var í raun selt í hendur þeim síðarnefnda sem heimanmundur.
Samkvæmt rannsókn Hills á sögu Hjaltlands hefur það frá 1669 tilheyrt bresku krúnunni, þótt yfirvöld í Skotlandi, Stóra-Bretlandi og Sameinaða breska konungdæminu, hafi í gegnum tíðina tekið sér óréttmæt völd á Hjaltlandi.
Hill býður jafnfram hverjum þeim sem vilji „losna undan lygurum, þjófum og harðstjórum í ríkisstjórn“ að gerast ríkisborgari á Forvík.